11.02.2008 10:08

Björn á Brandsstöðum ræktaði kartöflur

Höfundur Aldarminningar JBB setur greinargóða lýsingu á búnaðarháttum í upphafi bókar sinnar, s. s. um tvennar kaupstaðarferðir á ári, um aðdrætti úr veri, hvað var selt og hvað var keypt og hvernig kartöflurækt hófst í Blöndudal svo nokkuð sé nefnt

Búnaðarfélög

Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppa  Aldarminning Ak. 1944 er rit samið af Jónasi B. Bjarnasyni sem lengi bjó í Litladal, föður Bjarna kennara í Blöndudalshólum. Í inngangi segir JBB frá búnaðarháttum eins og þeir voru um 1840:

?Flestir bændur lifðu þá að svo miklu leyti sem unnt var af eigin framleiðslu. Kúabú voru víðast það stór sem töðuafli frekast leyfði og allvíða voru kýr að nokkru leyti fóðraðar á útheyjum og gjörðu því minna gagn en ella því að ekki var þá um neinn fóðurbæti að tala.

Öllum málbærum ám var fært frá og þær nytkaðar yfir sumarið fram að réttum og búið til smjör og skyr úr mjólkinni. Ær voru óvíða margar en allir búendur áttu fleira og færra af sauðum til heimaslátrunar að haustinu og þeir fjárflestu eitthvað til sölu.

Að öðru leyti var lógað heima elstu ánum og því allra smæsta af fjallalömbunum svo að víðast var allmikið af kjöti lagt til heimilis. Svo var og mikið af harðfiski lagt til heimilis, á stærri búum 10-20 vættir og jafnvel meira á stærstu heimilum enda var þá miklum mun minna notað af kornvörum en nú tíðkast, t.d. heyrði sá er þetta ritar roskinn bónda segja árið 1874 er hann var að tala um hve mikið eyðsla á útlendum vörum hefði aukist í sínum búskap ?Framan af búskap mínum eyddist aldrei hálftunna af kornvörum á mann yfir árið, en nú dugar mér ekki heil tunna á mann.?

Auk kjöts og fisks var einnig notað mikið af fjallagrösum sem höfð voru í grauta og einnig soðin í mjólk þegar hún var til. Brauð sást óvíða nema á hátíðum og kaffi var víða ekki notað nema á hátíðum og handa heldri gestum.

Garðávextir voru þá hér í nærsveitum sem ekkert ræktaðir nema á nokkrum bæjum í Vatnsdal, sem smám saman breiddist út þaðan og mun Björn á Brandsstöðum sem vorið 1836 fluttist frá Guðrúnarstöðum í Vatnsdal að Brandsstöðum hafa verið einhver sá fyrsti í Bólstaðarhlíðar- og Svínavatnshreppum sem gjörði tilraun með kartöflurækt.

Frá mjög mörgum heimilum var ekki farið í kaupstað nema tvisvar á ári. Að sumrinu eftir fráfærur var farin aðalkaupstaðarferð ársins. Fóru bændur þá með vörur þær sem framleiddar höfðu verið á heimilum þeirra yfir árið og sem bú þeirra gátu án verið, en það var ull, tólg og prjónles og fluttu þá heim aftur brýnustu nauðsynjar til búa sinna svo sem kornvörur, salt og járn og eitthvað af timbri, ef það þá var fáanlegt. Auk þess eitthvað af munaðarvörum svo sem tóbak og brennivín sem þá var töluvert notað því að aðalgóðgjörðir handa gestum sem ekki komu á matmálstíma var eitt eða fleiri staup af brennivíni.

Kramvara var mjög lítið tekin, því að föt, bæði karla og kvenna voru nær eingöngu heimaunnin úr ull.

Flestir bændur fóru aðra kaupstaðarferð til Skagastrandar að haustinu. Um og nokkur ár eftir 1840 mun engin fjártaka hafa verið á Skagaströnd en þar versluðu þá því nær allir Húnvetningar og meiri hluti Skagfirðinga vestan Héraðsvatna.

Auk þessara kaupstaðarferða til Skagastrandar í sumar- og haustkauptíð, fóru flestir bændur skreiðarferð sem svo var nefnd suður að Faxaflóa eða vestur á Snæfellsnes, undir Jökul, til harðfisksaðdrátta. Mjög margir bændur höfðu einn eða fleiri menn við sjó yfir vetrarvertíðina og margir þeirra réru einnig vorvertíð-ina. Var fiskurinn hertur og fluttur heim í skreiðarferðinni sem farin var um Jónsmessu. Flestir sem sjóróðra stunduðu yfir vetrarvertíðina úr Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppum, munu hafa farið suður á Suðurnes við Faxaflóa því að ferðir héðan úr nærsveitunum til verstöðvanna á Snæfellsnesi munu þá að mestu hafa verið lagðar niður. Svo að skreiðarferðirnar hér úr þessum sveitum voru því nær eingöngu farnar á Suðurnes og var þá jafnan farið suður Stórasand og Kaldadal.

Sumir bændur fóru sjálfir suður til sjóróðra að vetrinum og voru nokkrir þeirra formenn þar. Fyrir kom það að bændur sem sjálfir voru heima að vetrinum við skepnuhirðingu fóru suður um eða eftir sumarmál og reru þar vorvertíðina. Þegar vel fiskaðist lögðu sumir nokkuð af fiski inn í verslanir fyrir sunnan og keyptu þar ýmsar nauðsynjar til heimila sinna eða tóku út peninga til opinberra gjalda eða annarra þarfa.

Þeir bændur sem ekki höfðu menn við sjóróðra, fóru einnig skreiðarferð og keyptu fisk, að mestu fyrir búsafurðir sínar svo sem smjör, tólg, skinn, vaðmál og prjónles því að allar þær vörur höfðu sjávarbændur þörf fyrir.

Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478591
Samtals gestir: 92247
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 20:25:06