02.02.2008 15:16

Hlýtt er að fá kveðju frá árinu 1944 sbr neðstu línurnar

 

Unnur Pétursdóttir (1894-1968) frá Bollastöðum er minnisstæð þeim er hana sáu. Ung glímdi hún við vanheilsu og öldruð gekk hún kýtt og hæg, kom stundum fram í Ártún að finna ömmu og annað heimilisfólk. Faðir hennar, Pétur á Bollastöðum hafði verið oddviti sveitarinnar og eins tengdafaðir hans, Guðmundur á Bollastöðum og Unnur kominn af stórbændum og sveitarhöfðingjum. 

Þegar skoðaðar eru hrepps- og sveitarfundagerðir sést að hún hefur setið í nefnd með Jónasi Tryggvasyni og Stefáni á Gili til að gera tillögur um endurbyggingu á Þinghúsinu í Bólstaðarhlíð eða aðra kosti.

Unnur tók mikinn þátt í kvenfélaginu og heiður af ýmsum fundargerðum og skriftum, allt að því persónulegum eins og frásögn af afmæli formannsins:

Miðvikudagurinn 8. mars rann upp bjartur og fagur.


Þann dag varð Elísabet Guðmundsdóttir á Gili 60 ára.
Þann dag komum við allar félagskonur saman á Gili nema tvær sem ekki gátu komið sökum veikinda. Í tilefni af afmælinu komu þar líka margir fleiri gestir. Og afmælisbarninu bárust mörg skeyti því hún á almennum vinsældum að fagna. Veitingar og önnur aðbúð að gestum var eins og ávallt á Gili af frá rausn og prýði.
Var skemmt dans, söng og samræður frá kl. 1 um daginn til kl. 9 um kvöldið að farið var að búast til heimferðar. Hefðu þó allir kosið að vera lengur en mjaltir og önnur störf heima kölluðu á einvirkjana. Elísabet hefur verið formaður félagsins frá stofnfundi þess 15 febrúar 1927. Hún er og hefur alltaf verið ákaflega dugleg og áhugasöm félagskona, sannkölluð lífæð kvenfélagsins. En aldrei heyrist hún kvarta eða telja eftir sér alla sína vinnu í þarfir félagsins.

Sem vott um þakklæti okkar félagskvenna, gáfum við henni stól og myndaútgáfu af passíusálmunum með nöfnum okkar áskrifuðum.

Ég hefi sett þessar línur hér að gamni mínu ef einhver kynni síðar að fletta þessari bók. 

                                                    Unnur Pétursdóttir.

Flettingar í dag: 115
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478550
Samtals gestir: 92242
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 19:53:22