02.02.2008 10:00

Þá gekk ein kona í félagið, Anna Bjarnadóttir Botnastöðum

Ár. 1946 27. okt. Fundur Kvenfélags Bólstaðarhlíðarhrepps haldinn að Þverárdal. Fundarkonur voru aðeins 10 það sinn.

1. Formaður setti fundinn og bauð fundarkonur velkomnar.

Fundarstjóri Anna Sigurjónsdóttir.

1. Lesin og samþykkt fundargjörð síðasta fundar.

2. Formaður skýrði frá því að hér í hreppi hefði safnast til kvennaheimilins Hallveigarstaða allt að 400 kr. Fyrir utan þá upphæð sem kvenfélagið hefur ákveðið að gefa úr félagssjóði. Á fundinum kom fram tillaga um að herbergi það sem austur-húnvetnskar konur eignuðust í Hallveigarstöðum bæri nafn frú Elínar Briem þar sem hún hefði verið brautryðjandi í menntamálum húnvetnskra kvenna og fyrsta forstöðukona kvennaskólans á Ytri-Ey. Samþykkti allar fundarkonur þessa tillögu.

3. Anna Sigurjónsdóttir vakti umræðu um bindindismál. Töldu allar fundarkonur mikla þörf á að gera eitthvað til úrbóta því böli sem af ofdrykkju leiðir. Til þess að reyna að gera eitthvað meira en tala um þetta, ákvað fundurinn að boða formenn karlakórsins og ungmennafélagsins á næsta kvenfélagsfund. Í þeirri von að öll þessi félög taki höndum saman um þetta mál og að með því móti geti nokkuð áunnist minnsta kosti hér í sveit.

4. Næst kom til umræðu afmælisfagnaður félagsins. Kvenfélagið verður 20 ára 15. febr. n.k. En þar sem svo fáar félagskonur voru mættar var engu slegið föstu að svo stöddu en frestaðist til næsta fundar.

5. Þá ákvað fundurinn að félagið héldi skemmtisamkomu fyrir jólin. Í ár þarf kvenfélagið að hjálpa eftir því sem hægt er Mjóadalsheimilinu. Bóndinn þar, Guðlaugur Pétursson veiktist síðastliðið sumar og dvelur síðan á Vífilsstöðum. En þessi hjón eiga 5 kornung börn. Í skemmtinefnd voru kosnar 3 konur.

6. Þá gekk ein kona í félagið Anna Bjarnadóttir Botnastöðum. Fluttist hún ásamt manni og börnum að Botnastöðum síðastliðið vor frá Fjalli í Sæmundarhlíð.

Fundi slitið. Unnur Pétursdóttir

Flettingar í dag: 88
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478523
Samtals gestir: 92241
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 18:46:08